Ásta Sigurhildur Magnúsdóttir fæddist 3. nóvember 1924 og varð hún því hundrað ára í gær. Ásta fæddist í Móakoti í Staðarhverfi í Grindavík. Þá var Móakot lágreistur torfbær, en síðar byggði faðir Ástu annað hús á jörðinni og þar ólst hún svo upp ásamt systur sinni Ásrúnu Guðmundu.
Þær systur hjálpuðu foreldrum sínum við að sinna kindum, kúm og hænunum, ásamt því að hjálpa mömmu sinni við heimilisstörfin eins og tíðkaðist á þeim tíma. Enginn barnaskóli var í Staðarhverfi og þurftu því börnin í hverfinu að sækja skóla í Járngerðarstaðahverfi.
„Klukkustundargangur var í skólann hvora leið en við töldum það ekkert eftir okkur að ganga þessa leið, enda öll spennt að vera í skólanum á þessum árum,“ segir Ásta. „Skólinn byrjaði á hverjum morgni klukkan hálfníu og stóð fram eftir degi. Flestir voru þá í skóla til 14 ára aldurs,
...