Halla Gunnarsdóttir, starfandi formaður VR, segir hluta af ástæðu þess að boðað sé til þingkosninga nú vera vegna skilaboða sem komu frá verkalýðshreyfingunni á haustdögum um að ekki væri hægt að fara í gegnum þingvetur án þess að takast á við þann efnahagslega veruleika sem fólkið í landinu býr við. Hún segir launafólk svo sannarlega geta haft áhrif á gang mála í landinu. Halla segir verkalýðshreyfingu í eðli sínu vera pólitíska.
„Veruleiki launafólks á Íslandi er sá að hér hafa vextir mjög lengi verið mjög háir og margvíslegir erfiðleikar í efnahagsmálum. Byrðarnar af því hafa verið bornar af launafólki í gegnum verðlag og húsnæðiskostnað, hvort heldur sem það er með húsnæðisskuldir eða leigir. Slíkt gerist á sama tíma og aðrir maka krókinn.“ Hún telur kosningarnar eiga að snúast um húsnæðis- og efnahagsmál. » 11