Haukar eru áfram í þriðja sæti úrvalsdeildar kvenna í handknattleik eftir að hafa unnið þægilegan sigur á ÍBV, 26:20, í Vestmannaeyjum á laugardag.
Haukar eru nú með tíu stig, jafnmörg og Fram í öðru sæti og fjórum stigum á eftir toppliði Vals. ÍBV er áfram í fimmta sæti með sex stig.
Haukar voru tveimur mörkum yfir, 12:10, í hálfleik. Í síðari hálfleik reyndust Haukar svo sterkari og unnu að lokum góðan sex marka sigur. Rut Arnfjörð Jónsdóttir var markahæst hjá Haukum með sjö mörk. Elín Klara Þorkelsdóttir, Rakel Oddný Guðmundsdóttir og Inga Dís Jóhannsdóttir bættu við fjórum mörkum hver.
Birna Berg Haraldsdóttir var markahæst í leiknum en hún skoraði níu mörk fyrir ÍBV. Sunna Jónsdóttir skoraði fjögur mörk. Haukar heimsækja næst nýliða Selfoss á föstudagskvöld og ÍBV fær nýliða Gróttu í heimsókn á laugardag.