Hrafnhildur Proppé fæddist 13. janúar 1965 í Reykjavík. Hún lést í faðmi fjölskyldunnar á líknardeild Landspítalans í Kópavogi 23. október 2024.
Foreldrar hennar voru Hulda Sólrún Gústafsdóttir, f. 8. maí 1946, d. 31. ágúst 2020 og Sævar Proppé, f. 24. september 1945. Uppeldisfaðir Hrafnhildar var Halldór Hestnes, f. 16. mars 1946.
Sammæðra systur Hrafnhildar eru Ágústa Björk Hestnes og Hólmfríður Erla Hestnes.
Samfeðra systkini Hrafnhildar eru Jóhanna Þóra Proppé, Sigurður Sævar Proppé og Jóhannes Haraldur Proppé.
Hrafnhildur giftist lífsförunaut sínum Guðmundi Kristjáni Sigurðssyni 13. október 2023 eftir 35 ára sambúð.
Börn Hrafnhildar eru:
1) Einar Gíslason, f. 14.5.1983, maki Soffía Tinna Gunnhildardóttir, f. 25.9. 1988. Börn: Magnea, f. 10.5. 2003, Garðar, f. 1.4. 2014 og Saga Karitas, f. 24.3. 2018.
2) Ásgeir Hrafn Ólafsson, f. 21.4. 1987, barn: Oliver Hrafn, f. 5.4. 2013.
3) Sólrún H. Guðmunddóttir Proppé, f. 6.5. 1997, gift Bjarna Ásgeiri Jónssyni, f. 2.6. 1995. Börn: Móey Lilja, f. 25.9. 2018 og Bríet Saga, f. 12.8. 2021.
4) Sigurður Steinar Guðmundsson, f. 10.9. 1999.
Hrafnhildur ólst að mestu upp í Bökkunum í Breiðholtinu og gekk í Breiðholtsskóla. Á fullorðinsárum flutti hún í Seljahverfið, þar sem hún ól upp tvo elstu syni sína. Árið 1996 flutti Hrafnhildur ásamt sonum sínum og Guðmundi til Horsens í Danmörku. Í Danmörku eignuðust þau tvö yngstu börnin sín áður en þau fluttu aftur í Seljahverfið árið 2001. Síðustu þrjú ár Hrafnhildar bjuggu þau í Mosfellsbæ.
Útför Hrafnhildar fer fram frá Fossvogskirkju í dag, 4. nóvember 2024, kl. 13
Elsku mamma mín.
Elsku mamma, með tár á hvarmi og sorg í hjarta kvöddumst við þann 23.10.
síðastliðinn, á þeim mjög svo táknræna degi, einmitt bleika deginum sem því
miður var alltof snemma, söknuður gerir strax vart við sig, ótrúlegt
hvernig lífið getur verið svo ósanngjarnt en samt svo fallegt á sama tíma.
Dagurinn sem þú kvaddir var frekar blautur og úti var veður vont, sem var
svolítið lýsandi fyrir veikindin sem þú glímdir við en þegar örlagastundin
rann upp féll allt í dúnalogn og dásemdarsólin, sem þú unnir svo heitt,
braust fram og skein þér til heiðurs sem gerði mjög svo erfiða en friðsæla
stund bærilegri, rétt eins og úr einhverju handriti að fallegri bíómynd. Ég
trúi því að þinna krafta hafi verið óskað annars staðar, í sumarlandinu,
þar sem þjáningar og annað misjafnt finnast ekki. Þau hefur vantað dugnað
þinn, reynslu og þor, ásamt þínu breiða baki, til að sinna einhverju mjög
áríðandi og mikilvægu, fyrst ekki var hægt að bíða lengur.
Þannig hugsa ég um þig, elsku mamma. Duglegri og þrautseigari konu þekki ég
varla og með Gumma þinn (og minn) þér við hlið var hann kletturinn þinn og
saman tvö voruð þið bjargið okkar. Þrautir þínar í lífinu mótuðu þig en
náðu þér aldrei alveg og þú hélst fast í þinn frábæra húmor fram á það
síðasta. Eins og þegar við Magnea komum í heimsókn til þín á líknardeildina
og þú sagðir við okkur þegar við vorum að kveðja: Gott að sjá ykkur og
gaman að sjá einhverja með svona lífleg andlit! Svo grettir þú þig og
rakst tunguna út. Það var alltaf svo stutt í grínið hjá þér, elsku
mamma.
Þú kenndir okkur svo margt, eitt af því var einmitt það að gefast aldrei
upp. Þú sýndir það og sannaðir með ást þinni og hlýju til okkar og kenndir
okkur að það að gera sitt besta væri nóg, aldrei umframkröfur eða væntingar
til annars en að við kæmum til dyranna eins og við erum klædd. Þannig varst
þú heiðarleg, trú sjálfri þér og þannig var hægt að leita til þín með allt
sem bjátaði á eða bara fá ráð við hverju sem var, svo sem uppeldi barnanna
minna eða hvaða vítamín skyldi taka við hvers konar kvillum, bara svona svo
eitthvað sé nefnt, en þú hafðir ráð við öllu.
Allar sögurnar af okkur í gegnum tíðina, og hlátursköstin þín, standa upp
úr og þú nýttir hvert tækifæri til að segja okkur og öllum frá. Þær eru
ansi margar sögurnar og flestar mætti nota til greiningar á ADHD sem við
systkinin fengum vitanlega í arf.
T.d. eins og þegar ég á eins árs afmælinu mínu settist ofan á allar
kökurnar sem voru það margar og flottar að þú þurftir að geyma þær úti á
svölum vegna plássleysis og hafðir þú eytt mörgum dögum í að búa þær til,
en þar með fóru þær allar í vaskinn á einu bretti og þú þurftir því að
hlaupa út í bakarí til að bjarga því sem bjargað varð.
Eða þegar ég festi appelsínubörk uppi í nefinu á mér og þú hélst að heilinn
í mér væri að leka út, það varð að slysóferð, einni af mörgum.
Eins þegar ég litaði nýja hvíta sófann þinn fagurrauðan, með nýja dýra
varalitnum þínum sem þú hafðir keypt daginn áður.
Og þegar ég hellti lýsi yfir gólfið í allri íbúðinni og skautaði á því fram
og til baka líkt og á skautasvelli.
Svo þegar ég velti vagninum sem öll börn í fjölskyldunni höfðu sofið vært í
á undan mér án vandkvæða.
Og að lokum, þegar ég átti að koma heim úr sveitinni eftir eitt sumarið með
rútu frá Blönduósi en var svo óvart skilinn eftir í Borgarnesi af því að ég
fór að pissa, þá sjö eða átta ára. Þegar þú komst að sækja mig niður á BSÍ,
þá var enginn Einar um borð og sannarlega varð uppi fótur og fit.
Þetta er bara brot af því besta og mér líður eins og ég muni þetta allt
nema hvað, það er bara í gegnum þig, lýsingarnar, tilþrifin og
leiklistarhæfileikarnir þegar þú sagðir frá og síðast en ekki síst hvað þú
gast hlegið endalaust að öllu þessu fer aldrei úr minni, þrátt fyrir að
þetta hafi kannski ekki verið svo fyndið meðan á þessu stóð.
En þú stóðst öll prófin, ef þú spyrð mig, elsku mamma. Þú sást til þess að
okkur vanhagaði ekki um neitt. Öll ferðalögin, útilegurnar, skíðaferðirnar
og hringferðirnar, allt þetta til þess að fræða okkur og sýna hvað skiptir
máli, gildin í lífinu, réttvísin, ástin og umhyggjan var alltumlykjandi og
segja má að þú hafir lifað fyrir okkur, og útkoman er sú að þú komst mér
til manns, þrátt fyrir allt og þá er nú mikið sagt. Vel gert, mamma!
Það sem situr eftir, allar minningarnar og minningar um þig sem ég mun
geyma með mér um ókomna tíð. Þá er það þakklætið sem ber einna hæst og vil
ég, elsku mamma, þakka þér fyrir allt, takk fyrir þig. Ég er stoltur af þér
og þínum verkum og ég er stoltur af því að vera sonur þinn, og ég veit að
þú varst stolt af mér. Það var hvernig þú sagðir það, og þá sérstaklega í
seinni tíð, þarna kemur frumburðurinn, þá vissi ég það. Þótt vindar hafi
blásið í allar áttir, og skipst á skin og skúrir, þá höfum við hvort um sig
a.m.k. gert eitthvað rétt, og kann ég þér bestu þakkir fyrir elsku
mamma.
Hvíldu í friði elsku mamma, þar til við hittumst aftur, ég veit líka að þú
munt ekki sitja auðum höndum í sumarlandinu og lætur til þín taka í þeim
verkefnum sem þar eru og þér eru ætluð. Enda ekki þekkt fyrir annað.
Ég sendi þér hinstu kveðju, kærleikskveðju, frá mér til þín, endilega
skilaðu kærleikskveðju til allra minna. Góða ferð elsku mamma, þangað til
næst.
Þinn frumburður,
Einar.