Maðurinn sem lést eftir að hafa fallið í Tungufljót nálægt Geysi á sunnudag hét Sigurður Kristófer McQuillan Óskarsson og var formaður björgunarsveitarinnar Kyndils í Mosfellsbæ. Hann var við æfingu í straumvatnsbjörgun í og við Tungufljót þegar slysið varð.

„Það er ekki ljóst á þessari stundu hvernig slysið bar að og sú rannsókn er í höndum lögreglunnar á Suðurlandi. Okkar helsta hlutverk núna er að taka utan um félaga okkar og veita þeim þann stuðning sem þeir þurfa á að halda,“ segir formaður Landsbjargar, Borghildur Fjóla Kristjánsdóttir, í samtali við Morgunblaðið og tekur fram að ef eitthvað kemur í ljós sem hægt er að bæta í verkferlum félagsins þá verði það gert.

Slysið varð rétt fyrir klukkan fjögur á sunnudag. Straumvatnsbjörgunarmenn náðu Sigurði upp úr ánni og voru strax hafnar endurlífgunartilraunir á honum, en þær báru ekki árangur

...