Norski knattspyrnumaðurinn Martin Ödegaard fyrirliði Arsenal hefur hafið æfingar að nýju eftir að hafa verið frá vegna ökklameiðsla undanfarna tvo mánuði. Ödegaard meiddist í landsleik með Noregi í byrjun september og hefur af þeim sökum misst af 12 leikjum í öllum keppnum. Hann æfði hins vegar með Arsenal í gærmorgun og gæti verið klár í slaginn í kvöld þegar Arsenal heimsækir Inter Mílanó í Meistaradeildinni.

Stuart Hogg, fyrrverandi landsliðsfyrirliði Skotlands í rúgbí, hefur játað að hafa beitt eiginkonu sína Gillian Hogg heimilisofbeldi yfir fimm ára skeið. Réttarhöld áttu að hefjast í Selkirk í Skotlandi á mánudag en Stuart Hogg, sem er 32 ára og leikur nú með Montpellier í Frakklandi, játaði sök og reynist því ekki þörf á réttarhöldum. Stuart fær að vita hver refsing hans verður þann 5. desember næstkomandi.

...