Allt stefndi í spennandi kosninganótt í Bandaríkjunum í gærkvöldi, en skoðanakannanir síðustu vikna benda til þess að lítið skilji á milli frambjóðendanna tveggja. Smábærinn Dixville Notch í New Hampshire-ríki stærir sig af því að vera sá fyrsti í…
— AFP/Joseph Prezioso

Allt stefndi í spennandi kosninganótt í Bandaríkjunum í gærkvöldi, en skoðanakannanir síðustu vikna benda til þess að lítið skilji á milli frambjóðendanna tveggja.

Smábærinn Dixville Notch í New Hampshire-ríki stærir sig af því að vera sá fyrsti í hverjum forsetakosningum til þess að ljúka kjöri, en kjörstaðurinn þar opnaði dyr sínar á miðnætti í fyrrinótt og var opinn þar til allir þeir sex sem voru á kjörskránni höfðu greitt atkvæði.

Reyndust þau Kamala Harris frambjóðandi Demókrata og Donald Trump frambjóðandi Repúblikana hafa fengið þrjú atkvæði hvort, þrátt fyrir að fjórir kjósendur væru skráðir repúblikanar. Engin leið var þó að segja til um hvort sú niðurstaða gæfi einhverja vísbendingu um framhaldið, en Joe Biden hlaut öll atkvæðin í Dixville Notch fyrir fjórum árum.