Það er margt flókið og sumt allt að því bölvað, í henni veröld.
Lengi hafa menn gengið út frá því, að hinn vestræni heimur myndi standa við sitt í Úkraínu og eftir atvikum standa þétt við bakið á Ísrael, sem var frá upphafi þolandinn í styrjöldinni sem Hamas-sveitirnar stóðu óvænt fyrir, meira að segja svo, að her Ísraels og hin fræga leyniþjónusta þeirra þar, Mossad, vissu ekki hvaðan á sig stóð veðrið þegar ráðist var á almenna borgara með sérlega ógeðslegum hætti. Það mætti halda því fram að orðstír beggja hafi laskast verulega, en um leið má undirstrika, svo ekki fari á milli mála, „hvor byrjaði“ hinn ljóta leik.
Sömu sögu má raunar segja um slag Rússa og Úkraínu. Frá upphafi átaka þar gekk heimurinn út frá því, að þar færi fram mjög ójafn leikur, og það jafnvel svo, að Úkraínumenn ættu í rauninni litla von um sigur.
...