— AFP/Nidal Solh

Viðbragðsaðilar í borginni Baalbek sjást hér reyna að slökkva eld, sem kom upp í kjölfar loftárásar Ísraelshers á borgina. Herinn gerði einnig loftárásir á suðurhluta Beirút í gær eftir að hafa sent fyrirskipun til óbreyttra borgara um að flýja heimili sín.

Naim Qassim, leiðtogi hryðjuverkasamtakanna Hisbollah, flutti í gær sjónvarpsávarp þar sem hann sagði að samtökin hefðu tugi þúsunda vígamanna undir vopnum, sem væru reiðubúnir til þess að berjast við Ísraelsher.

Þá sagði Qassim að enginn staður í Ísrael yrði friðhelgur gagnvart árásum samtakanna. Ræðu hans var sjónvarpað eftir að tilkynnt var að Trump hefði unnið forsetakosningarnar í Bandaríkjunum, en hún var tekin upp áður. Sagði Qassim úrslitin engin áhrif myndu hafa á niðurstöðu átakanna.