Menntun Hús Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi setur svip á bæinn.
Menntun Hús Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi setur svip á bæinn. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi

Brýnt er að mæta þörfum framhaldsskólanema á Suðurlandi fyrir fjölbreyttari menntunarmöguleika, með áherslu á list-, verk- og iðngreinar, svo og efla fjarnám. Þetta segir í ályktun ársþings Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga sem haldið var í sl. viku. Þar voru fjölmörg mál til umræðu og sérstaklega voru menntamál ofarlega á baugi.

Finna þarf leiðir svo fólk á Suðurlandi geti stundað háskólanám í fjarnámi. Framhaldsskólar í landshlutanum ættu einnig að nýta sér fjarnám í samstarfi við aðra skóla á landinu til að bæta við kennslu í iðn- og listgreinum sem ekki eru í boði á svæðinu nú þegar. Með því væri hægt að tryggja að nemendur hefðu aðgang að fjölbreyttu námsframboði óháð staðsetningu.

Þá er í ályktun skorað á stjórnvöld að leita leiða til að efla íslenskukennslu í samstarfi við sveitarfélög. Tryggja þurfi fé til að tryggja nýjum íbúum tækifæri til að læra tungumálið og tryggja börnum með erlendan bakgrunn jafnrétti til náms. sbs@mbl.is