Í Hellinum er rætt um ýmislegt sem körlum þykir mikilvægt.
Í Hellinum er rætt um ýmislegt sem körlum þykir mikilvægt. — Ljósmynd/Unsplash, Anderson

Hellirinn er hittingur sem er til húsa í aðstöðu Framfarar í Hverafold 1-3 í Grafarvogi en þar hittast karlar fimmtudaga á milli 16 og 18. Sumir koma fyrr og þurfa að aðstoða við að raða kruðeríi á stóra diskinn. Það er gott fyrir karla sem vilja heyra frá öðrum körlum, hvernig þeim líður og hvernig þeir tækla kvilla í sínu bataferli því Framför er batasamfélag. Svo má bara fylgjast með því það þarf ekki að tjá sig. Þarna mæta karlar, allt frekar óformlegt og létt yfir, rætt er um ýmislegt sem körlum þykir mikilvægt, bíla eða báta en sneiðum hjá pólitík og trúarbrögðum, sem tekst ekki alltaf. Í boði er kaffi, vatn og te en líka Sæmundur og Sæmundur í sparifötum og Sæmundur í bleikum kjól. Ef einhver veit ekki hver Sæmundur er má gera ráð fyrir að hann sé ungur.