Lýst er þungum áhyggjum af áhrifum mögulegs loðnubrests í bókun bæjarráðs Hornafjarðar. Ef ekki verði loðnuvertíð á næsta ári sé það annað árið í röð sem slíkt tekjutap dynur yfir sveitarfélagið og samfélagið á Höfn í Hornafirði. Mikilvægt er í þessu sambandi, segja Hornfirðingar, að Hafrannsóknastofnun sé fjárhagslega undir það búin að fara í öflugar bergmálsmælingar í byrjun næsta árs til að hægt sé að ganga úr skugga um hvort hægt sé að heimila loðnuveiðar. Mikið sé í húfi.
„Það er skýlaus krafa sjávarbyggða á Íslandi að ríkisvaldið sjái til þess að jafn mikilvæg stofnun og Hafrannsóknastofnun sé fullfjármögnuð og gert kleift að halda úti öflugum rannsóknum á fiskistofnum þjóðarinnar til að hægt sé að tryggja sjálfbærar veiðar,“ segir bæjarráð Hornafjarðar.