Sigurður Bogi Sævarsson
sbs@mbl.is
Óli Þór Árnason veðurfræðingur er nýr gestur á heimilum landsmanna. Óhætt er að segja að hann hafi komið sterkur inn um síðustu helgi í frumraun sinni á RÚV sem veðurfræðingur í sjónvarpsfréttum; þar sem hann sagði frá lægðum, hæðum, hita, vindáttum og veðurbrigðum. Kunnugum ber saman um að spá Óla hafi í meginatriðum gengið eftir, svo framhaldið veit á gott. Þjóðin sýndi sjónvarpsmanninum nýja strax mikla athygli. Umræður hófust á félagsmiðlum og hagyrðingar létu ekki sitt eftir liggja í umsögnum sínum um manninn sem Morgunblaðið hitti nú í vikubyrjun. Við tókum kaffibolla á heimili Óla Þórs í Grafarvogi í Reykjavík; manns sem á jeppa sem er nauðsynlegur þeim sem stundar fjallaferðir, veiðar og er með hunda.