Baldur Þór Þorvaldsson
Einhver kunnasti sögustaður landsins er vafalaust Drekkingarhylur á Þingvöllum. Hann er við endann á Almannagjá að austanverðu þar sem Öxará steypist úr gjánni. Leið þeirra sem fara um gjána liggur framhjá honum, yfir Öxará á brú og niður á Vellina. Umhverfi hans er tilkomumikið og því ætti þessi umgjörð að nægja til að veita honum athygli, en það kemur fleira til. Hann skipar sérstakan sess í þjóðarsögunni vegna hlutverks síns fyrr á öldum. Eins og nafnið segir notaðist hann til óhugnanlegra verka, því þar var sakakonum fyrr á öldum drekkt. Þingvellir eru ekki aðeins tákn þjóðarinnar um þjóðarmetnað og sjálfstæði heldur einnig um örbirgð og kúgun. Sem þingstaður fór þar fram uppkvaðning dóma og fullnusta, sem mörg örnefni þar bera vitni um og verður að telja Drekkingarhyl þar í fremstu röð. Þessa gætti sérstaklega á 17. og 18. öld á tímum illræmdasta
...