Fiðluleikarinn Sif Margrét Tulinius fagnar útgáfu plötunnar De Lumine með tónleikum í Norðurljósum Hörpu á sunnudag, 10. nóvember. Tónleikarnir eru hluti af tónleikaröðinni Sígildir sunnudagar og hefjast kl. 16.

De Lumine kemur út á morgun, 8. nóvember, á vegum breska útgáfufyrirtækisins Ulysses Arts. Platan inniheldur nýjar hljóðritanir af þremur nýjum tónverkum fyrir einleiksfiðlu eftir þrjú íslensk tónskáld í flutningi Sifjar. Tónverkin þrjú eru eftir Hjálmar H. Ragnarsson, Huga Guðmundsson og Viktor Orra Árnason. Þau eru í tilkynningu sögð „af mismunandi gerð og karakter, en þau eru öll frekar stór í sniðum þar sem heimur fiðlunnar er kannaður til hins ýtrasta og gerðar eru miklar kröfur til hljóðfæraleikarans hvað varðar tæknilega útfærslu og hugmyndaauðgi“.