Þrátt fyrir áföllin finnst mér lífið bara eitthvað svo gott og gefandi,“ segir Hólmfríður Sigurðardóttir, sem stýrir Makafélagi Framfarar og situr í stjórn félagsins. Það er ótrúleg orka í kringum Hólmfríði. Hún starfar sem umhverfisgyðja Orkuveitunnar á daginn og þó einungis sé eitt og hálft ár frá því eiginmaður hennar veiktist þá eru þau bæði komin í Framför og hún í stjórn félagsins. „Félagið býður upp á mikilvægan jafningjastuðning. Það er alltaf áfall þegar makinn greinist með krabbamein. Fyrst verður maður dofinn og svo leita hugsanirnar í það hvort lífsförunauturinn muni lifa þetta af. Þá ertu á stigi lífsbjargar, þar sem öllu máli skiptir að lifa af. Svo tekur við tímabil úrvinnslu, þar sem maður byrjar að skoða hvað er í boði, til að taka burt meinið og sporna við endurgreiningu. Eftir það er algengt að fara inn í tímabil uppbyggingar þar sem mörg tabúmál finnast.“
...