Kristmundur Benjamín Ásmundsson er fæddur 8. nóvember 1949 í bakherbergi í Hvömmunum í Kópavogi, þar sem hann bjó sín uppvaxtarár hjá móður sinni og ömmu. Faðir hans fórst 1958 er Kristmundur var tæpra níu ára. „Við skiptum um heimilisfang þrisvar sinnum en bjuggum alltaf í sama húsinu, slík var uppbyggingin í Kópavogi þá.“
Á æskuárunum var Kristmundur sendur í sveit á sumrin, frá fimm ára aldri. Fyrst í Viðvíkursveit í Skagafirði, enda Skagfirðingur að ættum að mestu. Síðan var hann nokkur sumur í Saurbæ í Dölum, og að lokum ein 5-6 sumur að Leirulæk við Langá í Mýrasýslu.
Kristmundur gekk í Barnaskóla Kópavogs og síðan í Gagnfræðaskólann þar og útskrifaðist þaðan með landsprófi. „Ég fór síðan í Menntaskólann í Reykjavík, en skipti yfir í MH, þar sem ég vildi fylgja uppáhaldskennara mínum, Örnólfi Thorlacius, er sá flutti sig
...