Haustsýning Grósku var opnuð á dögunum í Gallerí Kaffihúsi í Garðabæ. „Sýningin er afar óvenjuleg þar sem við umbreyttum skjannahvítum salnum í litríkt og notalegt kaffihús með sófum og borðum á víð og dreif. Ljúfir tónar flæða saman við hráa myndlistina, skissur, litatilraunir í bland við fullunnin verk og gestum uppálagt að grípa með sér prjónana eða bækur og eiga notalega stund. Einnig verða óvæntar uppákomur, eins og gengur og gerist á kaffihúsum,“ segir í tilkynningu. Gróska er samtök myndlistarmanna og áhugafólks um myndlist í Garðabæ og verður sýningin opin næstu tvær helgar, 9. og 10. nóvember og 16. og 17. nóvember, milli klukkan 14 og 17.