Trump væri „fasisti“, um það þurfti engan vitnisburð, hann væri einfaldlega fasisti. En af því að það væri of óljóst, þá væri kristalklárt að Trump væri Hitler! Hvenær hann varð það var ekki útskýrt. Og þar sem hann væri Hitler, þá væri hann ekki aðeins fasisti, hann væri auðvitað nasisti. Ef það blasti við, að hann væri Hitler, þá gæti hann ekki hlaupið undan því að vera nasisti auk þess að vera fasisti! Svo varð hann skyndilega Benito.
Siglufjörður í vetrarsól.
Siglufjörður í vetrarsól. — Morgunblaðið/Árni Sæberg

Hin sjálfumglaða Evrópa verður ekki lengi að taka sprettinn og fara í hefðbundið kapphlaup um það, að ná því að hafa sinn fulltrúa framarlega í röðinni þegar ljós sýndi að nú mættu jafnvel sveitamenn banka á dyrnar á „oval office“, sem hefur í gegnum tíðina birst í hverri spennumyndinni á fætur annarri. En Trump hafði þegar þennan morgun tekið símtöl við 50 evrópsk stórmenni, sem eru þó flest fremur smá. Þessi stórmenni höfðu þó flest hist á neyðarfundi um það, hvernig mætti bregðast við því að voða, voða góður frambjóðandi hefði ekki fengið Hvíta húsið, heldur einhver sem skynjaði ekki endilega þann mikla vísdóm sem byggi í evrópskum leiðtogum.

Það var reyndar skondið, er Donald Trump spurðist fyrir, eins og peningamanna er vani, hvers vegna Natólöndin í Evrópu hefðu fæst staðið við loforð sín um að greiða sinn hlut af framlögum til varnarbandalagsins

...