„Laugarvatn var kannski skrifað í skýin; tilviljanir sem komu ein af annarri réðu því að við settumst þar að. Að nokkru leyti er bragurinn svipaður þar og í Grindavík; tengslin eru sterk og andinn jákvæður. Fólk lætur sig hvað annað varða,“ segir Anna Sigríður Sigurjónsdóttir myndhöggvari. Eiginkona hennar er Sólveig Magnea Jónsdóttir leiðsögumaður og fyrst eftir rýmingu Grindavíkur í fyrra höfðu þær til afnota hjá góðum vinum húsnæði í Auðsholti í Hrunamannahreppi – skammt frá Flúðum – og fundu sig vel á þeim slóðum. Þegar svo blasti við að ekki yrði í bráð afturkvæmt til búsetu í Grindavík segir Anna að beint hafi legið við að setja sig niður til lengri tíma í uppsveitunum á Suðurlandi. Niðurstaðan varð Laugarvatn.
Algjör draumastaður
„Hér fengum við á viðráðanlegu verði gott einbýlishús í fallegu umhverfi niðri við vatnið. Hér höfum
...