Sumir fagna sextugsafmæli sínu heima í faðmi fjölskyldunnar, aðrir á fínum veitingastöðum erlendis eða hreinlega bara í sólinni á fjarlægri strönd. Halldór Kr. Jónsson, viðskiptafræðingur, flugmaður og áhugaljósmyndari, fór aðra leið; kaus að eltast við óveður og skýstróka í Bandaríkjunum.
Hann kveðst lengi hafa haft augastað á þessu óvenjulega ferðalagi. „Ég er flugmaður og hef mikinn áhuga á veðri og skýjum og veðurfar í Bandaríkjunum er gjörólíkt því sem við eigum að venjast hér. Bandarískur vinur minn, Mike Mezeul ljósmyndari, er búinn að eltast við þess storma í 20 ár og það var hann sem hvatti mig til að koma vestur og reyna þetta á eigin skinni.“
Mike hefur oft komið til Íslands að mynda íslenska náttúru og Halldór þá gjarnan flogið með hann. „Vinátta tókst með okkur Mike fyrir sex árum og meðan
...