„Auðvitað stefnum við aftur til Grindavíkur. Þar var einstakt samfélag og við ætlum að sjálfsögðu að vera þátttakendur í þeirri sögu og ævintýri sem þar verður til með endurreisn bæjarins,“ segir Magni Emilsson. Í dag búa Magni, Gréta Dögg Hjálmarsdóttir kona hans og börnin þeirra fjögur í Reykjanesbæ og hafa verið þar síðan í september síðastliðnum. Áður höfðu þau um skeið búið í Vogum, Hafnarfirði og Grafarvogi í Reykjavík en einnig dvalist um hríð í sumarhúsi í Kjós. Hlutskipti margra Grindvíkinga síðustu misseri hefur einmitt verið að þurfa að fara stað úr stað enda þótt festa sé nú að komast á búsetu flestra.
Haldið verði í horfinu
„Þórkatla tók húsið okkar í Grindavík og þannig gátum við fest okkur eign í Keflavíkurhluta Reykjanesbæjar. Þegar aðstæður leyfa ætlum við þó aftur á fyrri slóðir, enda eru þau ákvæði í samningi okkar um söluna á
...