Það er engu líkara en að maður sé staddur í réttunum; hér er allt í gæru. En í raun og sann erum við komin inn á verkstæði í Bólstursmiðjunni í Síðumúlanum, þar sem Sigurjón Kristensen húsgagnabólstrari ræður ríkjum. Hann er ásamt sínu fólki að leggja lokahönd á nýjasta eintakið af stólnum Mána, sem er hans eigin hönnun, og er búinn að bæta við skemli og púða. Berja má stólinn augum á sýningunni Handverk og hönnun í Ráðhúsi Reykjavíkur sem stendur fram á mánudag.
„Hver stóll er einstakur. Þetta er fimmta eintakið sem ég geri en það fyrsta með skemli og púða. Þegar ég henti púðanum inn varð þetta allt í einu eins og hyrnd rolla en ekki kollótt,“ segir Sigurjón, þar sem við stöndum og virðum fyrir okkur gripinn. „Það eru fimm rollur í einum stól og fer í sexið ef menn taka skemilinn líka.“
...