Karlalandsliðið í handknattleik er komið til Tíblisi þar sem það mætir Georgíu í undankeppni EM 2026 á morgun klukkan 14. Íslenska liðið vann Bosníu í fyrstu umferðinni á miðvikudagskvöldið, 32:26, í Laugardalshöllinni á meðan Georgíumenn töpuðu naumlega fyrir Grikkjum á útivelli, 27:26. Lið Georgíu lék á sínu fyrsta stórmóti á þessu ári, EM 2024, þar sem liðið vann Bosníu 22:19 en tapaði 42:26 fyrir Svíum og 34:29 fyrir Hollendingum.