„Ég held að fólk sé svolítið með það á hreinu að næst þurfi ríkisstjórn sem sé samstæðari heldur en sú sem fór frá,“ segir Dagur. Hann segist telja að fólk hafi verið fegið að blásið hafi verið til kosninga.
Dagur er þaulreyndur úr borgarmálunum. Hann var borgarstjóri í næstum áratug og er formaður borgarráðs en nú hyggst hann snúa sér að landsmálunum. „Ég er spenntur. Mér líður svolítið eins og ég sé að skipta um skóla. Manstu eftir fiðrildunum sem fylgdu því?“ spyr hann. Þegar kom að því að raða á lista Samfylkingar í Reykjavík segist hann hafa hlustað eftir áhyggjum af því að innkoma hans myndi þýða að flokkurinn nyti ekki þess starfs sem unnið hafði verið í aðdragandanum. Þannig hafi hann lagt til að hann tæki 2. sæti á lista á eftir Kristrúnu Frostadóttur. „Ég var mjög sáttur við að fara þessa leið og held að ég geti gert vonandi töluvert gagn, stutt við og
...