Ragnar segir að besta kjarabótin sem hægt sé að ná fram fyrir samfélagið sé að lækka kostnað við að lifa og þá skuli horfa á stærsta kostnaðarliðinn, húsnæði og þróunina þar. Ragnar nefnir nýtt húsnæðislánakerfi og það að brjóta land til uppbyggingar á hagkvæmu húsnæði á viðráðanlegu verði sem dæmi um lausnir og hugmyndir sem unnið hefur verið að innan verkalýðshreyfingarinnar síðustu ár.
Hann segir kraftinn í Flokki fólksins, dugnaðinn og eljusemina höfða til sín og hvernig verkin séu látin tala. „Ég held að þau séu búin að leggja fram einhver 73 þingmál núna fyrir síðasta þing.“
Ragnar er formaður VR, stærsta stéttarfélags landsins. Hann segist þó hafa tekið þá ákvörðun strax í upphafi að fái hann brautargengi og umboð til að takast á við þau verkefni sem hann langar að takast á við á þingi verði nýr formaður kjörinn í VR í vor.