Benjamín Netanjahú forsætisráðherra Ísraels sagði í gær að hann hefði fyrirskipað samhæfða árás á símboða Hisbollah-liða hinn 17. september síðastliðinn. Ísraelsríki hefur fram til þessa ekki axlað ábyrgð á árásinni, sem varð tæplega 40 manns að falli og særði um 3.000 manns til viðbótar.
Árásin stóð yfir í tvo daga og voru símboðarnir margir hverjir sprengdir þegar meðlimir hryðjuverkasamtakanna voru staddir meðal almennings í Líbanon, þar á meðal á götum úti, í matvöruverslunum og í jarðarförum.
„Netanjahú hefur staðfest það að hann hafi gefið grænt ljós á símboðaaðgerðirnar í Líbanon,“ sagði talsmaður Netanjahú, Omer Dostri, við fréttaveituna AFP. Árásin var hluti af frekari stigmögnun átakanna milli Hisbollah-samtakanna og Ísraels og lagði aðgerðin grunn að landhernaði Ísraelsmanna í suðurhluta Líbanon.
...