— AFP/John MacDougall

Mikið var um dýrðir í Berlínarborg um helgina, en 35 ár voru liðin á laugardaginn frá því að Berlínarmúrinn féll. Var m.a. efnt til stórtónleika við Brandenborgarhliðið, sem lauk með tilkomumikilli flugeldasýningu.

Haldin var sérstök minningarathöfn fyrr um daginn um þá rúmlega 140 manns sem austurþýskir landamæraverðir drápu á tímum kalda stríðsins og var Frank-Walter Steinmeier Þýskalandsforseti á meðal gesta. Kai Wegner borgarstjóri sagði í ávarpi sínu á athöfninni að 9. nóvember 1989 undirstrikaði að ekki væri gefið að frelsið og lýðræðið yrðu ofan á.

Hátíðahöldin héldu svo áfram í gær, en þá hélt rússneska andófshljómsveitin Pussy Riot tónleika fyrir framan fyrrverandi höfuðstöðvar austurþýsku leyniþjónustunnar Stasi.