40 ára Birkir er Reykvíkingur og ólst upp í Hlíðunum frá fimm ára aldri og fór fljótlega eftir það að æfa fótbolta með Val. „Fótboltaáhuginn kom snemma, pabbi var að spila með alls konar liðum og ég horfði á hann spila frá því að ég var pínulítill. Svo er bróðir minn, Aron Elí, fyrirliði hjá Aftureldingu. Fjölskyldan er því mjög fótboltamiðuð.“

Birkir spilaði í meistaraflokki með Val 2003-2008 og varð bikarmeistari með félaginu 2005 og Íslandsmeistari 2007. Hann hélt síðan út í atvinnumennsku og spilaði með SK Brann sem er í Bergen, 2008-2014, og Hammarby IF, sem er í Suður-Stokkhólmi, 2015-2017. „Þetta voru mjög eftirminnilegir og frábærir tímar og geggjað að geta unnið við það sem manni finnst skemmtilegast.“ Hann hóf síðan aftur að spila með Vali 2018 þar til núna í haust, og varð Íslandsmeistari 2018 og 2020.

...