Ljóst var í gær að Donald Trump, fyrrverandi og verðandi forseti Bandaríkjanna, hefði haft betur í Arizona-ríki í forsetakosningunum fyrir tæpri viku. Náði Trump þar með að vinna öll ríkin sjö, sem fyrirfram voru talin „sveifluríki“ í baráttu Trumps við Kamölu Harris varaforseta um Hvíta húsið.
Búið var að greina frá úrslitum í öllum öðrum ríkjum og liggur niðurstaða forsetakosninganna þar með fyrir. Fékk Trump 312 kjörmenn, en Harris einungis 226.
Enn er þó eftir að ljúka talningu í kosningum til Bandaríkjaþings. Enn er eftir að ljúka talningu í tveimur ríkjum í öldungadeildinni, og gætu flokkarnir skipt þeim á milli sín. Enn er þá eftir að skera úr um 20 þingsæti í fulltrúadeildinni og eru repúblikanar nálægt því að halda naumum meirihluta þar.