Miðflokkurinn leggur áherslu á að vextir verði lækkaðir. „Aðferðin er fyrst og fremst sú að draga úr ríkisútgjöldum,“ segir Sigríður, sem telur hægt að skera niður í mörgum málaflokkum og nefnir hælisleitendakerfið, loftslagsmál og samgöngusáttmálann sem dæmi.
Hún segir ljóst að samgöngusáttmálinn muni ekki ná á endastöð á næstunni og að þegar sé byrjað að eyða hundruðum milljóna í verkefnið. Frekar eigi að einblína á hagkvæmari kosti til að laga samgöngur strax.
„Það er hljómgrunnur, hjá almennu fólki, fyrir skynsemi í stjórnmálum, fyrir skynsömum lausnum á flóknum verkefnum.“
Hvað brotthvarf sitt úr Sjálfstæðisflokknum varðar segist Sigríður ekki viss um að sjónarmið sín eigi lengur heima í flokknum. Eftirspurn hafi hins vegar verið eftir þeim í Miðflokknum.