Yfirboð í aðdraganda kosninga eru ekkert nýtt, en stundum ber kappið menn ofurliði, sérstaklega í dyggðabröltinu. Viðreisn Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur vill nú að nýskráningu á bensín- og dísilbílum verði hætt strax á næsta ári. Samfylking Kristrúnar Frostadóttur vill einnig gera það „raunhæft“ – hvað sem það nú þýðir – að banna nýskráningu slíkra ökutækja frá og með 2025.
Nú er það ekki ný hugmynd í nafni orkuskipta í samgöngum að setja síðasta söludag á bíla sem knúnir eru jarðefnaeldsneyti. Slík markmið hafa sést úti í heimi, en líkt og oft vilja menn gera „enn betur“ á Íslandi.
Íslensk stjórnvöld hafa miðað við 2030, en fráfarandi ríkisstjórn hafði 2028 „í skoðun“ skv. uppfærðri og „metnaðarfullri“ aðgerðaráætlun í loftslagsmálum. Ráðherrann felldi talið snarlega eftir háværa gagnrýni, enda fælu þessar fyrirætlanir í sér að fólk úti á landi og hinir efnaminni gætu ekki keypt sér nýja bíla.
...