Héraðsdómur Reykjaness úrskurðaði í gær karlmann á fimmtugsaldri í gæsluvarðhald til 18. nóvember vegna líkamsárásar í Hafnarfirði. Úrskurðað var á grundvelli rannsóknarhagsmuna að kröfu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í þágu rannsóknar hennar á alvarlegum ofbeldisbrotum.

Jepplingur fór út af Suðurlandsvegi, skammt frá Hádegismóum, síðdegis í gær. Slökkviliðsbíll og sjúkrabíll voru sendir á vettvang. Ökumaður jepplingsins var fluttur á slysadeild til skoðunar en hann var ekki talinn alvarlega slasaður.

Tilkynnt var um umferðarslys í Hafnarfirði þar sem ekið var á gangandi vegfaranda. Hlutust minniháttar meiðsli af slysinu en einn var fluttur á bráðamóttöku Landspítalans til frekari skoðunar.