Þannig að hagtölurnar segja allt aðra sögu. Úkraínumenn eru alveg ótrúlega seigir að gera við og halda hlutum gangandi.
Margeir Pétursson rekur banka við krefjandi aðtæður í vesturhluta Úkraínu.
Margeir Pétursson rekur banka við krefjandi aðtæður í vesturhluta Úkraínu. — Morgunblaðið/Karítas

Margeir Pétursson, bankamaður og stórmeistari í skák, heimsótti Morgunblaðið þegar hann var á landinu í síðustu viku. Volodimír Selenskí forseti Úkraínu var þá nýfarinn frá Íslandi en hann var hér á þingi Norðurlandaráðs.

Margeir stofnaði MP Verðbréf árið 1999 sem urðu að MP banka árið 2003 og var stærsti hluthafi bankans þegar hann hætti í stjórn hans 2010. MP banki sameinaðist svo Straumi fjárfestingabanka en sameinað félag, MP Straumur, varð síðar hluti af Kviku.

Margeir flutti til borgarinnar Lviv í vesturhluta Úkraínu árið 2004 og hefur verið hluthafi í Bank Lviv frá 2006. Hann hefur haft búsetu í Lviv frá árinu 2011 en ríflega sjö hundruð þúsund manns bjuggu í borginni þegar Rússar réðust inn í landið 24. febrúar 2022. Margeir talar rússnesku og skilur úkraínsku vel en hann lærði rússnesku sem ungur skákmaður.

...