„Það er ráðist á gyðinga eingöngu út af því að þeir eru gyðingar“

Ísraelsk stjórnvöld hafa varað stuðningsmenn ísraelska karlalandsliðsins í knattspyrnu við því að fara á viðureign Ísraels og Frakklands, sem fara á fram í París á morgun. Ástæðan er ótti við ofbeldi eftir þá óhugnanlegu atburði sem áttu sér stað í Amsterdam eftir viðureign heimaliðsins Ajax og ísraelska liðsins Maccabi Tel Aviv í Evrópukeppni meistaraliða í liðinni viku.

Eftir leikinn var ráðist á stuðningsmenn ísraelska liðsins að því er virðist með skipulögðum hætti. Stuðningsmenn þess voru barðir til óbóta og margir forðuðu sér með því að henda sér út í síki eða leita skjóls í anddyrum hótela.

Ofbeldi fylgir iðulega knattspyrnuleikjum, en að þessu sinni var ekki um að ræða átök milli áhangenda liðanna. Einn úr hópi stuðningsmanna ísraelska liðsins lýsti því svo að árásarmennirnir hefðu komið úr öllum áttum vopnaðir kylfum og grjóti.

...