Vísbendingar eru um að andleg heilsa barna á grunnskólaaldri hafi heilt yfir batnað á seinustu árum. Sýna nýjar niðurstöður Íslensku æskulýðsrannsóknarinnar að tíðni kvíða og depurðar hefur lækkað í öllum árgöngum. Eftir sem áður segist stór hluti nemenda, sérstaklega í 8. og 10. bekk, hafa á sl. sex mánuðum upplifað kvíða hér um bil daglega, oftar en einu sinni í viku eða u.þ.b. vikulega. Á það sérstaklega við um stúlkur en 62% stúlkna í 8. bekk og 72% í 10. bekk segjast hafa upplifað kvíða. Hefur það hlutfall þó farið lækkandi. Um helmingur stúlkna í 10. bekk finnur reglulega fyrir einkennum depurðar.

Niðurstöðurnar voru kynntar á málþingi í gær. Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, sagði þar að þær sýndu að meirihluti barna á Íslandi hefði það mjög gott og að andleg líðan hefði batnað umtalsvert á síðustu árum. „Börn og ungmenni segjast upplifa sterkari félagsleg tengsl,

...