Breski rithöfundurinn Samantha Harvey er handhafi Booker-verðlaunanna 2024, virtustu skáldsagnaverðlauna Bretlands. Segir á vef The Guardian að skáldsaga hennar, Orbital, hafi að einróma áliti dómnefndar verið valin sú besta en hún fjallar um sex geimfara á alþjóðlegu geimstöðinni. Þá var Harvey eini breski rithöfundurinn sem komst á stuttlistann í ár en hún sagðist í þakkarræðu sinni ekki hafa búist við að vinna verðlaunin.
Orbital, sem kom út í nóvember í fyrra, var söluhæsta bókin á stuttlistanum í ár en 29.000 eintök hafa selst í Bretlandi á þessu ári. Harvey hefur áður komist á langlista Booker-verðlaunanna en það var árið 2009 fyrir frumraun sína, The Wilderness.
Orbital, sem er 136 bls. að lengd, er næststysta bókin frá upphafi sem er verðlaunuð.
...