Í apríl 2023 var undirrituð viljayfirlýsing Special Olympics í Evrópu, menntamálaráðuneytis og Special Olympics á Íslandi sem tengist því markmiði Special Olympics-samtakanna að stuðla að aukinni inngildingu og eftirfylgni samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðra. Eitt af þeim verkefnum sem Special Olympics á Íslandi mun vinna að er samstarfsverkefni við skóla um „unified“ verkefni, en „unified“ er tákn um samstarf fatlaðra og ófatlaðra, til dæmis í íþróttum, námi eða starfi. Fjórir skólar á mismunandi skólastigum hafa verið valdir til samstarfs og verkefnið verður þróað í samráði við hvern skóla og í framhaldi við fleiri skóla. Ísland hefur átt keppendur í „unified“ golfi og badminton á heimsleikum SOI.