Þórður Snær Júlíusson, blaðamaður og frambjóðandi Samfylkingarinnar, hefur beðist velvirðingar á ummælum sínum um konur í nafnlausum bloggfærslum fyrir 20 árum. „Vegna þess þá er rétt að ég játi skýrt að hafa skrifað og sagt ýmislegt á þessum árum sem var vandræðalegt, heimskulegt og rangt. Á því biðst ég auðmjúklega afsökunar án nokkurs fyrirvara,“ skrifar Þórður á Facebook. Kveðst hann hafa þroskast og breyst frá þessum tíma. Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir ritstjóri Heimildarinnar gagnrýnir Þórð fyrir að gefa það í skyn að hann hafi verið ungur og óreyndur er orðin voru rituð. Ekki sé mikil auðmýkt í framsetningu afsökunarbeiðni hans. Ekki náðist í Kristrúnu Frostadóttur formann Samfylkingarinnar vegna málsins í gær.