Sextíu ár voru liðin 11. nóvember sl. frá því að Háskólasjóður hf. Eimskipafélags Íslands var stofnaður. Sjóðurinn var stofnaður til minningar um þá Vestur-Íslendinga sem tóku þátt í stofnun Eimskipafélagsins.
Alls hafa 199 doktorsnemar við Háskóla Íslands hlotið styrk frá því að farið var að greiða styrki úr sjóðnum með reglubundnum hætti. Heildarúthlutun styrkja frá upphafi nemur rúmum 1,8 milljörðum króna, en þar af voru greiddar 500 milljónir króna til byggingar Háskólatorgs Háskóla Íslands á árunum 2006 og 2007. Sjóðurinn er stærsti styrktarsjóður landsins, segir í fréttatilkynningu.
Grettir Eggertsson beitti sér fyrir stofnun sjóðsins til minningar um þá Vestur-Íslendinga sem hlut áttu að stofnun Eimskipafélagsins. Faðir Grettis, Árni Eggertsson, hafði átt stóran hlut í þátttöku Vestur-Íslendinga í stofnun félagsins 1914.