Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins tilkynnti í gær að hún hefði lagt sekt á bandaríska tæknirisann Meta fyrir brot á samkeppnislögum sambandsins. Nemur sektin um 797 milljónum evra, eða sem nemur um 116 milljörðum íslenskra króna.

Margrethe Vestager, framkvæmdastjóri ESB í samkeppnismálum, sagði að Meta hefði veitt notendum Facebook ólögmætan aðgang að smáauglýsingum sínum, Marketplace, á sama tíma og félagið beitti stærðarmun til þess að klekkja á öðrum veitendum smáauglýsinga.

Meta sagðist í yfirlýsingu ætla að áfrýja ákvörðuninni, þar sem notendur Facebook hefðu val um að notfæra sér Marketplace eða ekki.