Forseti Írans, Masoud Pezeshkian, sagði í gær við Rafael Grossi framkvæmdastjóra alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar IAEA að klerkastjórnin í Íran væri reiðubúin að vinna með stofnuninni til þess að svara öllum spurningum um hina „friðsamlegu“ kjarnorkuáætlun landsins.

Grossi sagði að nauðsynlegt væri að halda áfram viðræðum um kjarnorkuáætlunina til þess að forðast að frekari átök brytust út í Mið-Austurlöndum. Israel Katz varnarmálaráðherra Ísraels sagði fyrr í vikunni að nú gæfist besta tækifærið fyrir Ísraelsmenn til þess að eyðileggja kjarnorkuáætlun Írana. Sagði Grossi hins vegar að ekki væri rétt að ráðast á kjarnorkustofnanir Írana.