Jens Garðar Helgason er nýr oddviti Sjálfstæðis­flokksins í Norðausturkjördæmi. Hann segir það vera lykilatriði í kosningabaráttunni að ræða við fólk og fyrirtæki í kjördæminu og tala fyrir sjálfstæðisstefnunni.

Hann segir hátt vaxtastig brenna á fólki í kjördæminu og því verði eitt stærsta verk­efni nýs þings að koma böndum á útgjöld ríkissjóðs til þess að minnka verðbólgu og koma vaxtastiginu á réttan stað.

Eigendur lítilla fyrirtækja krefjast að hans sögn einföldunar regluverks og minnkunar báknsins. Hann segir aðspurður að þungt regluverk á fyrirtækjum hafi líka áhrif á launamenn á almennum vinnumarkaði.

„Það sem er verið að leggja á þessa litlu atvinnurekendur hefur áhrif á það hvað þeir geta stækkað, vaxið og bætt við sig fólki. Þannig að það hefur vissulega áhrif á alla sem eru á almennum vinnumarkaði á endanum,“ segir Jens Garðar.