Lindsey Vonn, ein sigursælasta skíðakona Bandaríkjanna, hefur tekið skíðin af hillunni fimm árum eftir að hún sagði skilið við íþróttina. Vonn, sem er fertug, fann sig knúna til að hætta árið 2019 vegna þrálátra hnémeiðsla sem ollu því að hún gat til að mynda ekki rétt fyllilega úr fætinum í áratug. Vonn gekkst undir liðskiptaaðgerð í apríl síðastliðnum og hefur bataferlið gengið það vel að hún hefur brátt æfingar með bandaríska skíðalandsliðinu í Colorado-ríki. Þegar hún hætti var Vonn sigursælasta skíðakona heims en landa hennar Mikaela Shiffrin ber þann heiður í dag.