Ingibjörg Isaksen, oddviti Framsóknar í Norðausturkjördæmi, segir flokkinn vita hvað hvílir á fólki í kjördæminu og það séu mál eins og verðbólga, vextir og húsnæðismál. Hún segir að fjárlögin, sem lögð hafa verið fyrir þingið, muni vinna að lækkun verðbólgu og þar með lækkun vaxta.

„Ef fram heldur sem horfir þá munum við ná tökum á þessu innan tíðar,“ segir hún.

Í heilbrigðismálum þarf að gera betur í Norðausturkjördæmi og nefnir hún að efla þurfi sjúkrahúsið á Akureyri sem háskólasjúkrahús.

„Fólkið hættir ekki að verða veikt, það þarf bara að fara suður til þess að fá þjónustuna. En það er miklu hagkvæmara fyrir ríkissjóð að bjóða upp á þjónustuna hér í heimabyggð nær fólkinu,“ segir hún.