Yoko Ono, ekkja Johns Lennons, er lögmætur eigandi úrs sem hún gaf eiginmanni sínum skömmu áður en hann var myrtur í New York í desember árið 1980. Þetta er niðurstaða hæstaréttar Sviss í máli sem höfðað var eftir að úrið var selt á uppboði í Genf fyrir um áratug.
Ono gaf Lennon fágætt 18 karata gullúr af gerðinni Patek Philippe 2499 á fertugsafmæli hans 9. október 1980. Á bakhlið úrsins var grafin áletrunin (JUST LIKE) STARTING OVER LOVE YOKO 10-9-1980 N.Y.C, en þar er vísað í nafn á lagi sem Lennon gaf út skömmu áður, hans síðasta meðan hann var á lífi.
Úrið var á skrá yfir eigur dánarbús Lennons og geymt í herbergi í íbúð hjónanna í Dakota-byggingunni í New York. Tyrkneskur maður, sem vann sem bílstjóri Ono á árunum 1995-2006, virðist hafa stolið úrinu ásamt 86 öðrum munum úr dánarbúi Lennons og selt þá árið 2010. Úrið gekk síðan á milli nokkurra aðila þar til það var afhent þýsku uppboðsfyrirtæki sem seldi það árið 2014 ítölskum safnara, sem er búsettur í
...