Ágúst H. Bjarnason
Þjófhellisrjóður í Eldborgarhrauni er afskekktur staður, sem fáir hafa heimsótt. Þar hagaði svo til, að hveragufa lék um djúpa og alllanga hraunkvos. Í hrauninu eru margar gjótur, stórar og litlar, þröngar og víðar. Í þeim var dágóður hiti og loft rakamettað. Sumarið 1977 mældi Haukur Jóhannesson jarðfræðingur 42°C í gjótu og fann kalkútfellingar á tveimur stöðum (munnl. uppl.).
Gróskan yfir gróðrinum var hið fyrsta, sem athygli vakti, þegar komið var í lægðina. Burknar og blómjurtir settu sterkan svip á umhverfið, en birkikjarr, loðvíðir og reyniviður trónuðu þar yfir. Allt eru þetta tegundir, sem eru vel þekktar í hraunum, en það er sjaldan, sem þær eru jafn þroskalegar. Af burknum voru þessar tegundir helstar: Stóriburkni (Dryopteris filix-mas), fjöllaufungur (Athyrium filix-femina) og skollakambur (Blechnum spicant). Í
...