Salvör Nordal
Í dag fögnum við degi mannréttinda barna en á þessum degi fyrir 35 árum var Barnasáttmálinn samþykktur á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna. Barnasáttmálinn felur í sér viðurkenningu á því að börn séu fullgildir einstaklingar og sjálfstæðir rétthafar. Hann kveður á um vernd grundvallarmannréttinda barna, eins og bann við mismunun, réttinn til lífs og þroska, friðhelgi fjölskyldu og einkalífs, félaga-, skoðana-, tjáningar- og trúfrelsi. Þá leggur sáttmálinn þær skyldur á aðildarríki að grípa til virkra og raunverulegra aðgerða til að vernda, virða og tryggja þau réttindi.
Mat á áhrifum á börn
Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. Barnasáttmálans á það sem er barni fyrir bestu ávallt að hafa forgang þegar ráðstafanir eru gerðar sem varða börn. Mat á því sem er barni fyrir bestu á ávallt að liggja til grundvallar
...