Smásagan „Sniglasúpan“ eftir Einar Leif Nielsen hlaut í gær Gaddakylfuna, verðlaun smásagnasamkeppni Hins íslenska glæpafélags (HÍG). Í öðru sæti varð „Rándýr“ eftir Ólaf Tómas Guðbjartsson og í þriðja sæti „Romm og kók og konan hans Gustavs“ eftir Ægi Jahnke. Ævar Örn Jósepsson foringi HÍG segir að Gaddakylfan hafi síðast verið afhent fyrir 11 árum, en 2006 til 2013 stóð félagið fyrir keppninni í samstarfi við hin ýmsu útgáfufyrirtæki. Í tilefni af 25 ára afmæli félagsins var ákveðið að blása lífi í hana að nýju, að þessu sinni í samstarfi við Storytel og Iceland Noir. Keppnin er jafnframt hluti af afmælisdagskrá félagsins sem nefnist Glæpafár í 25 ár. Alls bárust í keppnina 37 sögur frá 33 höfundum. Dómnefndina skipa Stefán Máni Sigþórsson, Margrét Höskuldsdóttir og Arnór Hjartarson. Verðlaunasögurnar þrjár verða, ásamt fleirum, gefnar út hjá Storytel.