Karlmaður hefur verið dæmdur í eins mánaðar skilorðsbundið fangelsi og til að greiða öðrum manni 400 þúsund krónur fyrir að hafa kýlt hann á skemmtistaðnum Catalínu í Hamraborg í Kópavogi í desember árið 2022.
Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur er atvikum í málinu lýst. Þar kemur fram að lögregla hafi verið kölluð á staðinn vegna slagsmála. Kom í ljós að gestur á staðnum hafði kýlt annan gest sem rotaðist við höggið og féll í gólfið. Hlaut hann m.a. nefbrot og höfuðverk.
Í skýrslutökum lýsti eigandi Catalínu, sem hafði horft á upptöku af atvikum, því að sá sem fyrir árásinni varð hafi verið með ögrandi tilburði gagnvart konu árásarmannsins og viðbrögðin þau að eiginmaðurinn hafi kýlt hann. Þrátt fyrir óskir lögreglu um myndefni úr eftirlitskerfinu skilaði það sér ekki og sagði eigandinn að hann hefði ekki náð að vista upptökuna í tæka tíð.